logo
HeilsuErla
Heilsupistlar
30 daga hreyfiáskorun í september
24 / 08 /2022
deila
30 daga hreyfiáskorun. September. dagatal

Heil og sæl.

Nú endurtökum við leikinn frá því í vor og hendum í aðra hreyfiáskorun. Skoraðu á vinnufélaga, skólafélaga, æfingafélaga, fjölskyldu eða vini að taka þátt í skemmtilegri hreyfiáskorun og hreyfðu þig í að minnsta kosti 30 mínútur daglega í 30 daga. Öll hreyfing telur! Ekki hika, taktu þátt! Það hefur enginn séð eftir því að hreyfa sig.

Náðu í dagatalið hér, prentaðu það út og hafðu það þar sem þú sérð það daglega. Við byrjum 1.september og þú skráir inn á dagatalið hreyfingu hvers dags til 30.september.

Ef við vinnum í átta klukkustundir á dag og sofum í aðrar átta þá eigum við ennþá átta klukkustundir afgangs til þess að sinna öðrum verkefnum eins og fjölskyldu, heimili, áhugamálum, hreyfingu og fleira. Við ættum því öll að geta fundið 30 mínútur daglega til þess að hreyfa okkur ef við forgangsröðum. Ef þér finnst erfitt að finna tíma fyrir hreyfingu þá hvet ég þig til þess að lesa pistilinn Tími er takmörkuð auðlind.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) ráðleggur öllum fullorðnum að hreyfa sig í að minnsta kosti 30 mínutur daglega því margar vísindarannsóknir hafa sýnt fram á að regluleg hreyfing hefur jákvæð áhrif á bæði líkamlega og andlega heilsu. Þeir sem hreyfa sig reglulega minnka meðal annars líkurnar á ýmsum sjúkdómum eins og kransæðasjúkdómum, heilablóðfalli, sykursýki 2, stoðkerfisvandamál, geðröskun og margt fleira. Reglubundin hreyfing eykur einnig líkurnar á langlífi og eykur lífsgæði. Ég hvet alla til þess að kynna sér nánari ráðleggingar um hreyfingu frá Embætti landlæknis.